Vinna við nýja brú yfir Eldvötn hjá Ásum í Skaftártungu er nú í fullum gangi en steypuvinnu á staðnum lauk í október á síðasta ári.
„Brúin var smíðuð í Póllandi í vetur en síðustu einingarnar komu á verkstað þann 28. mars síðastliðinn,“ segir Einar Már Magnússon, deildarstjóri á mannvirkjasviði framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar. Aðalverktaki verksins er Munck Íslandi ehf. en brúin var smíðuð af Vistal í Póllandi.
Brúin er stálbogabrú með frístandandi bogum og neti hengistanga sem ber uppi langbitana.
„Núna er verið að setja saman einingarnar sem komu frá Póllandi en samsetningunni mun ljúka í byrjun maí,“ segir Einar og bendir á að all sérstök aðferð verði notuð til að koma brúnni fyrir. „Henni verður í raun ýtt yfir ána. Byggðar verða bráðabirgðaundirstöður sem síðar verða fjarlægðar.“
Í sumar verður unnið að frágangi við brúnna en samtímis verður farið í vegagerð sitt hvoru megin við hana. Gert er ráð fyrir að brúin verði vígð í lok sumars.
Núverandi brú yfir Eldvatn við Ása skemmdist í Skaftárhlaupi árið 2015. Eftir það var brúin opnuð með miklum takmörkunum. Heildarþungi ökutækis á brúnni er takmarkaður við 5 tonn og einungis ein bifreið leyfð á brúnni í einu.