Mishittnir golfarar hafa valdið því að rúður brotna í húsum í nágrenni við golfvöllinn við Hótel Örk í Hveragerði. Auk skemmda segja íbúar þetta valda truflunum.
„Það brotnaði rúða hjá okkur í sumar og ég veit til þess að áður en við fluttum í þessa íbúð hafði rúða brotnað,“ segir Sandra Sigurðardóttir, íbúi við Hraunbæ í Hveragerði.
„Það hefur töluvert af kúlum lent á þakinu hjá okkur og á pallinum og erum við með góða fötu sem fyllist hægt og rólega af kúlum sem hafa lent á lóðinni hjá okkur. Við erum mest hrædd um að kúlurnar lendi á börnunum sem eru úti að leika,“ segir Sandra. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni í Hraunbæ 7, skammt frá golfvellinum.
Sandra segist hafa sent bæjarráði erindi um málið, og á síðasta fundi ráðsins fól það byggingarfulltrúa að ræða við forsvarsmenn Hótels Arkar um leiðir til nauðsynlegra úrbóta vegna þessa.