„Þetta svæði er búið að vera flakandi jarðvegssár í tvö til þrjú ár,“ segir Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, um þá ákvörðun að verja 13 milljónum til framkvæmda við golfvöllinn við Borg.
„Það er mikilvægast að bjarga verðmætum og rykbinda svæðið. Fjölmargir hagsmunaaðilar í golfbransanum hafa komið að máli við sveitarfélagið og sagt að ekki megi kasta dýrum og umfangsmiklum undirbúningsframkvæmdir á glæ og því ákváðum við að halda áfram vinnu við frágang golfvallarins,“ segir Gunnar.
„Það er ekki í verkahring sveitarfélagsins að reka golfvöll og því verður völlurinn síðan seldur eða leigður út.“
Haraldur Már Stefánsson var fenginn til að leggja fram kostnaðar- og framkvæmdaáætlun svo hægt sé að ljúka 18 holu golfvelli og verður byrjað á því að undirbúa jarðveginn fyrir sáningu næsta vor.