Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Hellu, Hvolsvelli og Vík í Mýrdal voru kallaðar út í morgun til aðstoðar göngufólki við Hrafntinnusker.
Samkvæmt fyrstu upplýsingum var um að ræða par sem sendi frá sér neyðarboð sem svokölluðum SPOT neyðarsendi snemma í morgun. Samkvæmt sendinum voru þau stödd við gönguleiðina um Laugaveginn, skammt frá Hrafntinnuskeri.
Fólkið fannst fljótlega eftir að björgunarsveitarmenn komu á vettvang, heilt á húfi. Því var þó kalt og það örlítið hrakið en björgunarsveitarmenn fylgja fólkinu nú í skálann í Hrafntinnuskeri.
Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu segir að aðstæður á Laugaveginum séu erfiðari en oft áður þar sem svona snemma sumars er töluverður snjór á gönguleiðinni. Kemur það ferðalöngum oft á óvart eins og hér virðist hafa gerst.
Af því hversu vel fór hér má sjá nauðsyn þess að vera með einhvers konar neyðarsendi og að skilja eftir ferðaáætlun en slíkt má til dæmis gera á safetravel.is, vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar.