Hjálparsveitin Tintron og Hjálparsveit skáta í Hveragerði voru kallaðar út klukkan 20:15 í gærkvöldi vegna göngufólks sem var í vandræðum á Ingólfsfjalli, ofan við bæinn Litla-Háls í Grafningi.
Fólkið hafði lent í villum, komið niðamyrkur og það treysti sér ekki til að halda áfram.
Björgunarsveitarfólk á fjórhjólum og sexhjólum sóttu að fólkinu úr tveimur áttum og skömmu síðar var fólkið fundið, heilt á húfi.
Þá var hafist handa við að finna bestu leiðina að bíl Tintron, sem var kominn vel á veg upp á fjallið. Fólkinu var komið í hlýjuna í bílnum en þeim var orðið heldur kalt og voru skelkuð.
Fólkinu var svo ekið heim að bæ á Litla-Hálsi, þar sem lögreglan beið og gaf þeim far heim.