Björgunarsveitir voru kallaðar út undir kvöld til leitar að tveimur hópum gangandi fólks sem rataði ekki til baka á hótel sín í Mýrdalnum í snarvitlausu veðri.
Á níunda tímanum í kvöld voru allir fundnir heilir á húfi og var verið að leita að gistingu fyrir fólkið. Þá hafði verið kallaður út liðsauki; snjóbílar og mikið breyttir jeppar frá björgunarsveitum í Árnessýslu og af höfuðborgarsvæðinu.
Fólkið var í sambandi við Neyðarlínu en gat ekki gert sér grein fyrir hvar það var staðsett. Undir kvöld komust annar hópurinn inn á hótel í Reynisfjöru og hinn hópurinn inn á nærliggjandi sveitabæ.
Miklar annir hafa verið hjá björgunarsveitum í nágrenni Víkur í dag og fastir bílar hafa torveldað leið björgunarfólks um svæðið. Margir hafa þurft að bíða lengi í bílum sínum áður en björgunarsveitir hafa náð til fólks og reynt að koma þeim á gististaði. Um 50 strandaglópar eru nú við Gatnabrún og tíu við Pétursey og er unnið að því að koma þeim í skjól.
Snjóbílar og önnur björgunartæki sem farið hafa austur í dag verða til taks á þessu svæði á morgun, en búist er við slæmu veðri og færð á Suðurlandi og Suð-austurlandi í nótt og á morgun, annan dag jóla.