Gönguleiðum lokað í Hellisskógi

Vegna vegaframkvæmda í Hellisskógi hefur tveimur gönguleiðum verið lokað. Ljósmynd/Örn Óskarsson

Vegna framkvæmda við nýjan Suðurlandsveg í gegnum Hellisskóg við Selfoss hefur tveimur gönguleiðum frá aðal bílastæðinu í skóginum verið lokað.

Sett hafa verið upp lokunarskilti og leiðbeiningarskilti við stígana. Greint er frá þessu á heimasíðu Skógræktarfélags Selfoss og hvetur félagið gesti í skóginum til að virða þessar lokanir.

Enn er opið eftir veginum meðfram Ölfusá en sú leið mun einnig lokast síðar á árinu. Unnið er að því að útbúa aðra leið fyrir bíla og gangandi inn í skóginn ofan við Stekkjarholt, en óljóst er hvenær sú leið verður opnuð.

Í síðasta mánuði voru tvö reynitré flutt úr brúarstæðinu við Ölfusá á nýjan vaxtarstað ofar í Hellisskógi. Þessi tré voru þau einu sem voru metin verðmæt af þeim sem eru í vegstæðinu. Skógræktarfélagið hefur, frá því byrjað var að vinna í Hellisskógi árið 1986, skilið eftir 100 m breitt bil í skóginum fyrir væntanleg vegstæði.

Fyrri greinÞrenna Bjarna sökkti Herði
Næsta greinSelfoss fær sænskan miðvörð