Göngumaður slasaðist á Valahnúk

Frá útkallinu á Valahnúk í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Klukkan 14:05 í dag voru Björgunarsveitin Bróðurhöndin undir Eyjafjöllum og Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli kallaðar út vegna gönguslyss rétt undir toppi Valahnúks í Þórsmörk.

Sveitirnar brugðust hratt við og komu félagar úr Bróðurhöndinni fyrstir á vettvang ásamt skálavörðum í Langadal. Björgunarsveitin Dagrenning kom stuttu seinna auk björgunarsveitarfólks sem var í helgarfríi í Þórsmörk.

Hinn slasaði var með áverka á fæti og gat ekki stigið í fótinn. Hann var færður með böruburði stutta leið niður Valahnúk þar sem þyrlusveit Landhelgisgæslunnar gat lent og var hinn slasaði kominn í þyrlu klukkan rétt rúmlega fjögur, eftir gott samstarf allra viðbragðsaðila.

Þyrlan mætti á Valahnúk beint úr útkalli í Borgarfirði fyrr í dag þar sem hestamaður slasaðist við Kalmanstungu, sem er efsti bær í Hvítársíðunni. Hann var fluttur á bráðamóttöku í Reykjavík og hélt þyrlan svo beint austur í Þórsmörk.

Frá útkallinu á Valahnúk í dag. Ljósmynd/Landsbjörg
Fyrri greinSelfoss með betri uppskeru úr kartöflugarðinum
Næsta greinLífleg dagskrá á 17. júní í Hveragerði