Í seinni hluta september hóf Vatnajökulsþjóðgarður endurbætur á göngustígnum sem liggur frá tjaldsvæðinu í Skaftafelli að Svartafossi.
Endurbæturnar felast fyrst og fremst í breikkun stígsins, afkastameiri vatnsræsum og frostfríu undirlagi, en einnig er leitast við að jafna halla og lækka þau þrep sem á stígnum eru.
Í fyrsta áfanga verksins er unnið á þeim hluta stígsins sem liggur á milli tjaldsvæðis og Eystragils. Sá kafli er 543 metra langur og hefur undirlagi og ræsum nú verið komið fyrir á um 2/3 hluta hans. Þegar þeim hluta er lokið verða síðan sett þrep þar sem þeirra er þörf og yfirborðsefni lagt á undirlagið. Yfirborðsefnið er fínt, brúnleitt efni sem fengið er úr námu við Sandfell, en undirlagið grófara efni af Skeiðarársandi. Reynslan hefur sýnt að þessi efni bindast mjög vel saman og eru þægileg undir fótinn, þannig að vonandi verður útkoman ásættanleg fyrir flesta.
Hönnun endurbætta stígsins er í höndum Landmótunar. Þorlákur Magnússon, verktaki í Svínafelli, vinnur verkið ásamt starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs, en einnig hefur þjóðgarðurinn notið liðsinnis vélamanna úr sveitinni.