Síðastliðinn föstudag var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum 4 km löngum göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.
Í fyrsta áfanga verður lagður malarstígur frá Stokkseyri að Hraunsá, um 1.180 metrar. Kostnaður við fyrsta áfanga er áætlaður um 6 milljónir króna. Fyrr í sumar var boðin út gatnagerð í Sólvöllum á Stokkseyri þar sem Gröfutækni var lægstbjóðandi og hefur verið samið við fyrirtækið um lagningu á göngustígnum.
Áfangi tvö er smíði göngubrúar yfir Hraunsá þar sem gert er ráð fyrir bogadreginni límtrésbrú á steypum undirstöðum. Reikað er með að annar áfangi fari af stað í haust en brúin erður smíðuð af Límtré-Vírnet á Flúðum. Kostnaður við smíði og uppsetningu brúarinnar er áætlaður um 6 milljónir króna.
Verkhönnun á stígnum frá Hraunsá að Eyrarbakka verður lokið í haust. Lagning stígsins með malaryfirborði kostar samkvæmt frumáætlun um 35 milljónir króna en til viðbótar má áætla að malbik á stíginn kosti um 40 milljónir króna.