Göngustígur tileinkaður Guðmundi

Guðmundur F. Baldursson með eitt af skiltunum sem sett hafa verið upp við Guðmundarstíg. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Guðmundur F. Baldursson, skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar, fagnaði 40 ára starfsafmæli sínu þann 1. ágúst síðastliðinn.

Guðmundur er mikill áhugamaður um útivist og átti fyrir nokkrum árum hugmyndina að því að mörkuð yrði gönguleið frá goshvernum Grýlu og inn á Árhólma, innst á Vorsabæjarvöllum. Er stígur þessi einn af þeim skemmtilegri í bæjarfélaginu, þar sem hann hlykkjast meðfram hraunbrúninni, framhjá fornminjum, miklu skógræktarsvæði og berjalautum inn í enda á dalnum þar sem við taka gljúfur, fossar, flúðir og heitir lækir.

Starfsmenn bæjarskrifstofu fengu leiðsögn Guðmundar um stíginn nýverið og við það tilefni og að höfðu samráði við bæjarfulltrúa var ákveðið að stígurinn myndi framvegis heita Guðmundarstígur og vera tileinkaður Guðmundi í tilefni af 40 ára starfsafmæli hans. Skilti hafa verið útbúin og sett upp á þremur stöðum við stíginn svo ekki fari á milli mála hvert skal halda þegar gengið er eftir Guðmundarstígnum.

Frá þessu er greint á heimasíðu Hveragerðisbæjar.

Ljósmynd/Hveragerðisbær
Ljósmynd/Hveragerðisbær
Fyrri greinMeistararnir fá Leik
Næsta greinOpið bréf til lýðveldisbarna