Greinileg gasmengun frá eldgosinu í Geldingadölum hefur verið yfir Suðurlandi í dag en mælingar á loftgæðum hafa þó sýnt að ekki sé hætta á ferðum.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur gasmengun af hættulegum styrk mælst á vettvangi austan gosstöðvanna í dag, en hún hefur þynnst mikið þegar yfir á Suðurlandsundirlendið kemur.
Klukkan 10 í morgun fóru mælar að stíga og klukkan 12 voru gildin hæst í Hveragerði en þá mældist brennisteinsdíoxíð (SO2) 61,5 µg/m³. Greinileg blámóða er yfir Ingólfsfjalli og Ölfusinu og sjálfsagt víðar.
Styrkur brennisteinsdíoxíðs í andrúmsloftinu fór niður á við eftir hádegi en steig svo aftur og var í 54,9 µg/m³ kl. 14.
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun fara viðkvæmir einstaklingar að finna fyrir óþægindum í öndunarfærum ef styrkur brennisteinsdíoxíðs fer yfir 350 µg/m³.
Hægt er að fylgjast með loftgæðum á landinu á loftgaedi.is.