Selfossprestakall hlaut á dögunum styrk frá Samkaupum en hefð hefur skapast hjá fyrirtækinu að fyrir veita sérstaka jólastyrki í desember ár hvert.
Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur, tók við styrknum í verslun Nettó á Selfossi og var það verslunarstjórinn Patrik Thor Reynisson sem veitti styrkinn fyrir hönd Samkaupa.
Alls voru veittar tæpar fjórar milljónir króna í styrki í ár. Styrkir Samkaupa deilast niður á félög víðsvegar um landið í síðustu viku og þeirri sem er að líða, svo sem til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Rauða krossins á Egilsstöðum, Grindavíkurkirkju, Fjölskylduhjálpar Íslands og Styrktarsjóðs Húnvetninga.
Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa segir einkar ánægjulegt að geta stutt við félög víðsvegar um landið með þessum hætti.
„Við höfum styrkt góðgerðarfélög í desember undanfarin ár og það er gott að geta létt undir á þessum tíma og við vitum að það skiptir máli,” segir Gunnar Egill.
„Við rekum verslanir um allt land og okkur þótti því liggja beinast við að koma styrkjum sem víðast um landið og teljum okkur ná til býsna fjölbreytts hóps í ár. Við vonum innilega að styrkveitingin muni koma sér vel yfir hátíðarnar,” segir Gunnar Egill ennfremur.