Síðasliðið mánudagskvöld fóru fjórir einstaklingar inn í sundlaugargarð Sundhallar Selfoss og stálu ostastráknum Gotta af ostarennibrautinni í barnalauginni.
Einstaklingarnir voru á ferðinni rétt fyrir miðnætti en þeir náðust á eftirlitsmyndavélar sem staðsettar eru í sundlaugargarðinum.
Þessir fjórir einstaklingar unnu nokkrar skemmdir á ostinum og festingunum sem héldu Gotta niðri. Gotti hefur áður horfið úr garðinum en hann skilaði sér aftur nokkrum dögum seinna á heimili Sigmundar Stefánssonar, þáverandi Sundhallarstjóra. Gotti hafði þá bréf í fórum sínum þar sem hann bað Sigmund afsökunar á því að hafa farið út á lífið. Í kjölfarið festu starfsmenn sundhallarinnar Gotta vel niður við ostinn.
Á miðvikudagskvöldið rétt eftir miðnætti fóru síðan tveir einstaklingar inn í sundlaugargarðinn og settu lítinn garðálf í staðinn fyrir Gotta. Þeir einstaklingar sáust einnig í eftirlitsmyndavélum sem lögreglan á Selfossi hefur nú undir höndum.
Ef einhver kannast við að eiga umræddan garðálf þá er hægt að nálgast hann í afgreiðslu Sundhallar Selfoss. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gotta eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við starfsfólk Sundhallar Selfoss í síma 480-1960 eða lögregluna á Selfossi í síma 480-1010.