Þjórsárskóli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á sér landgræðslusvæði í Skaftholtsfjalli, sem er í næsta nágrenni við skólann.
Nýlega fór skólinn í sína árlegu landgræðsluferð. Að venju var margt gert, dreift úr heyrúllu á lítt grónar moldir og rofjaðar. Settir voru niður græðlingar af gul- og loðvíði sem nemendur höfðu klippt við skólann og einnig var gerð úttekt á afdrifum græðlinga sem þau settu niður í fyrra. Í því sambandi var sérstaklega hugað að áhrifum frostlyftingar á gróður. Eldri börnin settu upp einfalda áburðartilraun sem á að fylgjast með næstu árin. Að lokum var landgræðslusvæðið merkt með skiltum sem nemendur höfðu smíðað svo ekki fari á milli mála hvað þarna er um að vera.
Markmið skólans með þessu verkefni eru fjölþætt, bæði skammtíma og langtíma. Börnin fræðast m.a. um einkenni landrofs og ástæður fyrir myndun þess, af hverju landgræðsla er stunduð, mismunandi aðferðir við landgræðslu og að meðferð lands skiptir máli.
Landgræðslan hefur átt gott og ánægjulegt samstarf við Þjórsárskóla. Sigþrúður Jónsdóttir, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar leiðbeindi krökkunum sem oftar í þessum leiðangri.
Frá þessu er greint á vef Landgræðslunnar og þar má sjá fleiri myndir úr ferðinni.