Hvolsskóli á Hvolsvelli fékk í dag afhenta umhverfisviðurkenninguna Grænfánann í annað sinn. Í tilefni af því var hátíð við skólann.
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, skólastjóri, setti hátíðina áður en Kór Hvolsskóla söng undir stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur, tónmenntakennara. Að því loknu ávörpuðu Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri og Magnús J. Jóhannsson, sviðsstjóri þróunarsviðs Landgræðslunnar, samkomuna.
Orri Páll Jóhannsson, frá Landvernd, afhenti síðan skólanum fánann og viðurkenningarskjal en að því loknu drógu fulltrúar nemenda í umhverfisnefnd skólans fánann að húni ásamt Jóni Stefánssyni, umsjónarmanni verkefnisins í Hvolsskóla.
Meðal þess sem skólar þurfa að gera til að fá Grænfánann er að marka sér umhverfisstefnu, og fara eftir henni. Hvolsskóli setti sér umhverfisstefnu haustið 2006 þar sem meðal annars er lögð áhersla á að:
- Spara pappír, nýta hann vel og nota blöð báðum megin.
- Draga úr notkun einnota umbúða – skólamjólk er keypt í 10 l umbúðum og nemendur drekka úr glösum sem þvegin eru á staðnum.
- Jarðgera alla lífræna afganga í moltukassa skólans, svo sem afganga af nesti nemenda, matarafganga úr eldhúsi og sag úr smíðastofu.
- Spara rafmagn – nota dagsbirtu og hafa slökkt í herbergjum þar sem enginn er að störfum og slökkva á tækjum sem ekki er verið að nota.
- Draga úr vatnsnotkun og láta vatnið ekki renna að óþörfu.
Grænfáninn blaktir við hún við Hvolsskóla. sunnlenska.is/Þuríður H. Aradóttir