Grængresið gæti fallið – Ekki búist við kali

Í hlýindunum síðustu vikur hafa grös tekið við sér og í Rangárþingi og Mýrdalnum má sjá algræna velli víða. Nú er frost og jafnvel snjór í veðurkortunum framundan.

Kristján Bj. Jónsson, jarðræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, sagði í samtali við sunnlenska.is að grængresið sem komið er muni trúlega falla að einhverju leiti í kuldakastinu sem framundan er, þó að það þurfi ekki endilega að vera.

„Við Sunnlendingar erum ekki óvön að fá hlýindiskafla að vetrinum, þó þessi hafi verið óvenju langur. Bændur þurfa þó alltaf að hafa vissar áhyggjur af túnum sínum fram á vor. Ekki er búist við hefðbundnu kali hér eftir, en stundum verður mikil grisjun í túnum síðla vetrar. Veikburða grös ná sér ekki á strik og drepast þegar kemur fram á vor, lendi þau í erfiðu tíðarfari, jafnvel stuttu. Það er talað um að túngróðurinn hafi grisjast mikið seinni hluta vetrar, þó svo að ekki verði vart við hinar svokölluðu kalskellur,“ segir Kristján og bætir við að hann hafi sem stendur meiri áhyggjur af runnum, sérstaklega af erlendum uppruna, því brum þeirr hafi verið orðin ansi þrútin.

„Birkið lætur vonandi ekki plata sig nú, fremur en fyrri daginn, því það stjórnast fyrst og fremst af birtunni, en ekki hitastiginu. Aftur á móti getur allt farið illa fáum við yfir okkur annað „Hákonarhret“, en svo var páskahretið kallað eftir Hákoni Bjarnasyni þáverandi skógræktarstjóra, sem gekk yfir 9. apríl 1963,“ sagði Kristján að lokum.

Fyrri greinSkrifað undir samninga vegna Landsmóts 50+ í Vík
Næsta greinMarín Laufey íþróttamaður Hamars