Grænuhlíð á Skeiðum lætur lítið yfir sér. Við ökum þarna fram hjá og veitum kannski athygli nokkrum öspum og runnum.
En þegar inn fyrir hlið er komið opnast ævintýraveröld og er ljóst að íbúar hafa lagt á sig mikla vinnu við að gera umhverfi sitt notalegt, fallegt og ekki síst gagnlegt án þess að ganga á náttúruna á staðnum.
„Matjurtaræktun er allmikil fyrir heimilið, hænur vappa um og hjálpa til við illgresiseyðingu, því engin eiturefni eru notuð og úrgangur þeirra nýtist sem áburður,“ segir Anna María Flygenring, formaður umhverfisnefndar Skeiða og Gnúpverjahrepps um Grænuhlíð, sem fékk umhverfisverðlaunin 2015 í sveitarfélaginu um síðustu helgi.
Í Grænuhlíð eru tvö gróðurhús þar sem vaxa hindber, vínber og avokado og úti eru ræktaðar gulrætur, kartöflur, kál ýmis konar, jarðarber og jafnvel baunir. Fiskatjörn er á staðnum með líflegum skrautfiskum og umhverfis hana eru fjölmargar litlar og stórar styttur, sumar heimagerðar.
„Íbúar leggja kapp á að nota hreinsi- og þvottavörur með Svansmerkinu og fylgjast vel með orkunotkun. Þau endurnýta heita vatnið sem er frá hitaveitu frá Blesastöðum á þann hátt að affallsvatn fer í gegnum gróðurhúsin og fiskatjörnina ef þess þarf í kulda,“ bætirAnna María við.