Hrúturinn Grábotni setti í síðustu viku óvenjulegt met þegar hann gaf samtals 280 sæðisskammta á einum morgni.
Fram kemur á vef Búnaðarsambands Suðurlands, að þetta sé mesta magn sem hrútur hafi gefið af sæði á einum degi hjá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands í Þorleifskoti í Flóahreppi. Líklega er þetta Íslandsmet því gott þykir ef hrútur skilar 100 skömmtum.
Á vef Búnaðarsambandsins segir, að Grábotni hafi reynst gríðargóður sæðisgjafi í vetur og gefið um 40 strá á dag.
Sæðisgjafinn öflugi er frá Vogum í Mývatnssveit en fenginn í stöðina frá Geiteyjarströnd í sömu sveit þar sem hann hafði verið notaður.