„Greinilegt að fólk var farið að vanta hollan drykk í dós“

Anna Júlía Magnúsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Á Vorkvöldi Lindex sem haldið var nýverið á Selfossi var boðið upp á drykk sem sló heldur betur í gegn meðal gesta. Drykkurinn, sem heitir CocoCoast, er kolsýrt kókosvatn sem ólíkt flestum öðrum kolsýrðum drykkjum hefur margvíslegan ávinning fyrir heilsuna.

Ung kona frá Selfossi að nafni Anna Júlía Magnúsdóttir er konan á bak við CocoCoast á Íslandi.

„Við Alex kærasti minn vorum í Ástralíu í byrjun árs 2024 og þar kynntumst við CocoCoast drykknum. Við urðum svo hrifin og langaði að leyfa öllum að smakka þannig að við fórum að skoða möguleikann á að flytja hann inn til Íslands,“ segir Anna Júlía í samtali við sunnlenska.is.

Níu mánaða meðganga
Anna Júlía segir að þau hafi endað á að senda einum eigandanum skilaboð í gegnum forritið WhatsApp. „Við sögðum honum frá okkur og hreinlega spurðum bara hvort við mættum fá umboðið á Íslandi. Þó að við hefðum ekki reynslu í innflutningi leist honum vel á bakgrunninn okkar í markaðsmálum og hversu spennt við vorum fyrir drykknum.“

„Við áttum svo gott símtal við hann þar sem við ákváðum að byrja ferlið. Níu mánuðum seinna var hann kominn í verslanir á Íslandi,“ segir Anna Júlía en drykkurinn fæst meðal annars á verslunum Krónunnar.

CocoCoast drykkurinn hefur fengið frábærar viðtökur. Ljósmynd/Aðsend

Allt náttúrulegt
CocoCoast drykkurinn er úr hreinu kókosvatni. „Við erum svo með þrjár bragðtegundir með kolsýru og tvö af þeim með viðbættum hreinum safa úr sítrónum og hindberjum. Allt náttúrulegt, engin gerviefni.“

„Viðtökurnar hafa verið vonum framar. Það er greinilegt að fólki var farið að vanta hollan drykk í dós sem hægt er að njóta án þess að pæla í óþarfa gerviefnum eða koffíni.“

Vökvar líkamann einstaklega vel
Anna Júlía segir að CocoCoast sé fyrir fólk á öllum aldri. „Kókosvatn er náttúrulega ríkt af steinefnum og söltum eins og magnesíum og kalíum sem gerir það að verkum að það vökvar líkamann einstaklega vel. Ég fæ mér til dæmis alltaf einn eftir æfingar til þess að endurheimta söltin. Svo finnst mér græni fullkominn í boostið. Síðan er þetta bara góður kostur til þess að hvíla sig aðeins á öllu koffíninu og gerviefnunum sem eru í flestum drykkjum á markaðnum.“

„Kókosvatnið í CocoCoast drykkjum kemur beint úr kókoshnetunni en er ekki búið til úr þykkni. Maður verður nefnilega að vara sig þegar maður kaupir kókosvatn vegna þess að flestar vörur sem merkja sig sem „kókosdrykk“ eða eitthvað álíka eru úr þykkni en eru samt seldar á sama verði og hreint kókosvatn,“ segir Anna Júlía ennfremur.

Anna Júlía (lengst til hægri), ásamt Önnu móðursystur sinni og Nínu ömmu sinni á Vorkvöldi Lindex sem haldið var 13. mars sl. á Selfossi. CocoCoast drykkurinn sló algjörlega í gegn á Vorkvöldinu. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinFjölmenni á Eyrarbakkafundi Kristrúnar
Næsta greinVatnið í Hveragerði neysluhæft