Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína, undirrituðu í dag þrjár nýjar bókanir við fríverslunarsamning Íslands og Kína. Undirritunin fór fram í höfuðstöðvum Matvælastofnunar á Selfossi.
Með bókununum opnast ný tækifæri fyrir útflutning á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína. Bókanirnar varða viðurkenningu á heilbrigðisstöðlum fyrir fiskeldisafurðir, fiskimjöl og lýsi og ull og gærur. Bókanirnar eru afrakstur samstarfs Matvælastofnunar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins við yfirvöld tolla- og dýraheilbrigðismála í Kína. Einnig var undirritað samkomulag um eflingu samstarfs á sviði heilbrigðiseftirlits.
„Í ferð minni til Kína í fyrrahaust skrifuðum við undir bókun um heilbrigðisvottun á íslensku lambakjöti og því má segja að við séum að taka upp þráðinn síðan þá. Með undirrituninni í dag er verið að stíga enn eitt skrefið í að liðka fyrir framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Kína,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Kínverski tollamálaráðherrann gerði víðreist í heimsókn sinni til Íslands en hann heimsótti meðal annars sauðfjárbændur í Eystra-Geldingaholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.