Gríðarleg fækkun fæðinga frá því skurðstofunni var lokað

Gríðarleg fækkun hefur orðið á fæðingum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi frá því vaktir skurðlæknis, fæðingarlæknis og svæfingarlæknis utan dagvinnutíma voru lagðar af árið 2009.

Árið 2009 fæddust 162 börn á HSu en á nýliðnu ári, 2012, voru fæðingarnar einungis 63. Þær voru rúmlega 90 árin 2010 og 2011.

„Fækkunina síðastliðin ár má að mestu rekja til lokunar á skurðstofu, við þurfum að senda miklu fleiri konur frá okkur heldur en áður og alltaf eru einhverjar sem velja sjálfar að fæða á Landspítalanum,“ sagði Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir á HSu, í samtali við sunnlenska.is.

„Hjá okkur fæða núna einungis konur í eðlilegri meðgöngu og fæðingu en við þurfum að senda frá okkur allar konur sem ekki falla undir það. Sem dæmi þurfum við að senda frá okkur allar konur sem hafa áður farið í keisaraskurð, konur sem þurfa á gangsetningu að halda, þar með talið konur sem missa vatnið og fara ekki sjálfkrafa af stað. Þetta á einnig við um konur sem fæða fyrir 37 vikna meðgöngu og konur með meðgöngutengda kvilla,“ sagði Sigrún ennfremur.

Að sögn Sigrúnar eru nokkuð margar konur skráðar í janúar á þessu ári en mun færri í febrúar og mars og næstu mánuðum þar á eftir þannig að ekki er ljóst hver þróunin verður á þessu ári.

Ljósmæður sinna einnig hjúkrunarvöktum

Eftir lokun skurðstofunnar hefur starfshlutfall ljósmæðra við HSu minnkað um 20% en starfskraftar þeirra hafa verið betur nýttir með hagræðingu í kjölfarið. Öll mæðravernd Heilsugæslu Selfoss var flutt á fæðingadeildina þannig að ljósmæður á fæðingadeild sjá nú um alla mæðravernd. Yfirljósmóðir hefur einnig yfirumsjón með allri mæðravernd á öðrum heilsugæslustöðvum í héraðinu og allar afleysingar á þeim stöðvum.

Einnig sinna ljósmæður á fæðingadeild hjúkrunarvöktum á næturvöktum fyrir hjúkrunardeildinar tvær, Ljósheima og Fossheima.

„Þannig hefur vinna ljósmæðra breyst töluvert. Það getur verið mikið álag á deildinni á morgunvöktum þegar mikið er í mæðravernd og ekki síst ef sængurkonur eru á deildinni eða fæðing er í gangi þannig að sem mestri göngudeildarvinnu er beint á kvöldin. Svo er auðvitað sólarhrings símaþjónusta hjá okkur sem er mjög mikið notuð,“ segir Sigrún.

„En svo vonumst við til að fæðingum haldi ekki áfram að fækka heldur fari aftur fjölgandi og konur átti sig á kostum þess að fæða á svona ljósmæðrarekinni einingu eins og við erum með hér á Selfossi,“ sagði Sigrún að lokum.

Fyrri greinMilljónatjón í mjólkurbúinu
Næsta greinBannað að kafa niður fyrir 18 metra í Silfru