Um tólfþúsund bílar fóru yfir Hellisheiði síðastliðinn laugardag og er þetta annar stærsti umferðardagurinn á heiðinni í ár. Aðeins föstudagurinn um verslunarmannahelgina er stærri.
Nærri 40% fleiri bílar fóru yfir Hellisheiði á laugardaginn heldur en á sama laugardegi í fyrra. Telja má víst að ísdagur Kjöríss hafi togað marga yfir heiðina en mannfjöldinn þar hefur aldrei verið meiri enda eins mikill ís á boðstólum og hver gat í sig troðið.
Umferðin á Hellisheiði var 7% meiri í síðustu viku en í sömu viku árið 2012. Einkennislag umferðarinnar er óhefðbundið þessa viku þar sem laugardagurinn er stærstur, en alla jafna eru föstu- og sunnudagar umferðarmestir yfir Hellisheiði.