Gríðarlegt álag á lögregluna í dag

Gríðarlegt álag hefur verið á lögregluna á Selfossi í dag og þurfti meðal annars að kalla til liðsauka frá Hvolsvelli og af höfuðborgarsvæðinu.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við sunnlenska.is að segja mætti að dagurinn hafi logað frá því rétt fyrir klukkan átta í morgun.

Í Silfru varð alvarlegt köfunarslys í hádeginu. Ekið var á hest á Gaulverjabæjarvegi í morgun, bílvelta varð á Biskupstungabraut ofan við Reykholt, önnur bílvelta í Kömbum, og þriðja bílveltan á Þingvallavegi við Kjósaskarðsveg. Þá ók bifreið útaf á Suðurlandsvegi við Kotströnd. Auk þess varð vinnuslys í mjólkurbúi MS á Selfossi í morgun. Þessi og fleiri verkefni komu öll inn á borð lögreglunnar frá því uppúr klukkan sjö í morgun til klukkan 13.

„Við gátum ekki sinnt öllum útköllunum strax og til dæmis var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fengin til að sinna bílveltunni við Kjósaskarðsveg. Auk þess fengum við liðsauka frá Hvolsvelli,“ sagði Þorgrímur Óli.

Að sögn Þorgríms Óla er mikil hálka á vegum á Suðurlandi í dag og hvetur Lögreglan á Suðurlandi alla ökumenn til að aka með gát og ekki vera á ferð á ökutækjum nema þau séu vel búin til vetraraksturs. Gott ráð sé að tjöruþvo hjólbarða.
Fyrri greinAlvarlegt köfunarslys í Silfru
Næsta greinEgill og Grímur í verðlaunasætum á RIG