Eyrbekkingar vöknuðu margir hverjir síðustu nótt af værum svefni þegar ein versta haglhríð í manna minnum reið yfir þorpið.
Á vef Veðurklúbbsins Andvara á Eyrarbakka kemur fram að einhver brögð hafi verið að því að öryggiskerfi bifreiða í þorpinu færu í gang við hamaganginn. Höglin voru á stærð við grænar baunir.
Samkvæmt ADTnet á vef Veðurstofu Íslands fylgdu tvær þrumur kolsvörtu éljaskýinu sem síðan mjakaði sér upp Ölfusið. Sjónarspilið var nokkuð magnað séð af skrifstofu sunnlenska.is í Sandvíkurhreppi því á meðan kolsvartur bakki lá yfir Eyrarbakka og Ölfusi var léttskýjað yfir Stokkseyri þar sem máninn óð fullur í skýjunum.