Gríðarlegur eldur á Selfossi

Kl. 18:33 í kvöld barst Neyðarlínunni tilkynning um eld í röralager á lóð Set í Gagnheiðinni á Selfossi.

Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Árnessýslu var kallað út og barðist við eldinn í rúma klukkustund. Slökkvistarf gekk ágætlega en mikil áhersla var lögð á að varna útbreiðslu eldsins í lagerinn á lóðinni, sem og í næsta hús.

Gríðarmikinn þykkan og svartan reykjarmökk lagði yfir bæinn en veðuraðstæður voru ágætar þannig að reykurinn steig hátt til himins.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is leikur grunur á að um íkveikju sé að ræða. Fyrr í kvöld slökkti slökkviliðið minni eld sem kveiktur hafður verið í rusli annars staðar í götunni.

UPPFÆRT 19:10

Unnið er að rýmingu íbúðarhúsnæðis að Fossheiði, Lyngheiði og Kirkjuvegi. Fjöldahjálparstöð RKÍ verður opnuð innan skamms í Vallaskóla.

UPFÆRT 19:40

Slökkvilið hefur náð tökum á eldinum. Ekki er vitað um nein slys á fólki.

Fyrri greinKFR sótti stig á Húsavík
Næsta grein„Þetta brennur af mikilli orku og ofsa“