Gríðarlegur eldur á Selfossi

Eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði í Gagnheiði á Selfossi laust eftir klukkan tíu í kvöld. Háar eldsúlur standa upp af húsinu og svartur reykjarmökkur liggur yfir bænum.

Samkvæmt heimildarmanni sunnlenska.is á vettvangi logar húsið stafnanna á milli og slökkviliðsmenn fá ekki við neitt ráðið.

Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Árnessýslu hefur verið kallað út og götum í kring hefur verið lokað.

UPPFÆRT KL. 22:53: Eldurinn logar í húsnæði Plastiðjunnar. Kökugerð HP er í næsta húsi við hliðina á en eldurinn virðist ekki hafa náð að teygja sig þangað. Húsnæði Plastiðjunnar er brunnið til kaldra kola en slökkviliðsmenn virðast hafa náð tökum á eldinum.

Hér má sjá myndband sem Sigurjón Valgeir Hafsteinsson tók á vettvangi í kvöld.

UPPFÆRT KL. 23:06: Búið er að rýma Hagahverfið og opna fjöldahjálparstöð í Vallaskóla á Selfossi.

UPPFÆRT KL. 23:30: Brunavarnir Árnessýslu telja sig hafa náð tökum á eldinum og gera sér vonir um að ná að bjarga nærliggjandi iðnaðarhúsnæði, bæði Gagnheiði 15 og 19. Björgunarsveitarmenn hafa nú rýmt þær götur sem metin var þörf á að rýma en einhverjir íbúanna kusu að fara ekki að heiman heldur loka vel gluggum og dyrum. Ekki eru talin efni til þess að bregðast við því sérstaklega eins og staðan er nú. Milli 40 og 50 manns eru í fjöldahjálparstöð í Vallaskóla. Þar fer vel um fólk í höndum RKÍ og HSu. Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki. Lögregla mun koma upplýsingum í fjölmiðla og í fjöldahjálparstöð þegar fólki er óhætt að snúa til síns heima á ný.

UPPFÆRT KL. 00:20: Slökkvilið er enn að störfum en nú er verið að slökkva í glæðum. Slökkviliði tókst að verja Gagnheiði 15 og 19 en reykur er þar í húsum. Þegar slökkvilið metur óhætt að hleypa fólki til síns heima verður rýmingu aflétt. Það verður vonandi innan tíðar. Upplýsingum um það verður komið hér inn og í fjölmiðla ásamt því að upplýst verðu um það í fjöldahjálparstöð.

UPPFÆRT KL. 00:51: Rýmingu húsa Grashaga, Reyrhaga, Laufhaga, Lambhaga og Úthaga á Selfossi er nú aflétt. Fólki er heimilt að snúa heim aftur. Enn er lokað í Úthaga en vonir standa til að hann hreinsi sig hratt núna. Vera kann að einhver húsanna séu metuð af reykjarlykt og er fólk hvatt til að lofta vel út sé þess kostur. Sé ekki hægt að vera í húsunum í nótt mun starfsfólk í fjöldahjálparstöð í Vallaskóla verða til aðstoðar því fólki sem ekki kemst til síns heima.

@ 12:51 AM: Evacuation of buildings in Haga District (Grashagi, Reyrhagi, Laufhagi, Lambhagi, Nauthagi og Heimahagi) Selfoss is now lifted. People can return home exept in houses in Úthagi which is still closed.

UPPFÆRT KL. 00:55: Slökkviliði tókst að verja Gagnheiði 15 (HP kökugerð) og Gagnheiði 19 (Trésmiðja Þórðar Árnasonar o.fl.). Tengibygging milli húss Plastiðjunnar og Gagnheiðar 19 brann og reykur barst inn í húsið þar.

UPPFÆRT KL. 01:00: Öllum rýmingum hefur verið aflétt. Slökkvistarfi er nú að ljúka á vettvangi í Gagnheiði á Selfossi. Ákveðið hefur verið að aflétta öllum rýmingum íbúðarhúsa í Hagahverfi þar með. Áfram verða lokanir um sinn vegna slökkvistarfs á vettvangi.

@ 1:04 AM: Evacuation of buildings in Haga District (Grashagi, Reyrhagi, Laufhagi, Lambhagi, Nauthagi, Úthagi og Heimahagi) Selfoss is now lifted. People can return home.

UPPFÆRT KL. 01:41: Fjöldahjálparstöð RKÍ í Vallaskóla hefur nú verið lokað. Þurfi einhver aðstoð RKÍ verður staðin vakt í húsnæði RKÍ vi Eyrarveg fram yfir 02:00.

Fyrri greinVilja að samvinnuhreyfingarinnar verði minnst í miðbænum
Næsta grein„Verðum fram undir morgun að slökkva í þessu“