Gríðarleg eftirspurn eftir tvískiptum tunnum

Hluti af tunnufjallinu á gámasvæðinu á Víkurheiði í Sandvíkurhreppi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Veglegt fjall af notuðum sorptunnum hefur myndast á gámasvæði Árborgar eftir að fjórðu tunnunni var bætt við á heimilum í sveitarfélaginu fyrr á árinu.

Ný tunna fyrir plast bættist við en um leið gafst íbúum kostur á að fá tvöfalda tunnu fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Eftirspurnin eftir þeim var mikil og brúnu og gráu tunnurnar sem skipt var út vegna þeirra eru nú í tunnufjallinu á gámasvæðinu. En hvað verður um þær?

„Eitthvað af þessum tunnum eru orðnar mjög gamlar og slitnar og verður þeim komið í endurvinnslu, restin verður svo seld til íbúa sem vilja kaupa notaðar tunnur á afslætti og þannig spara sér aðeins í startkostnaði,“ segir Atli Marel Vokes, sviðsstjóri mannvirkja- og umhverfissviðs hjá Sveitarfélaginu Árborg, í samtali við sunnlenska.is.

Atli segir að hann og hans fólk hafi ekki átt von á þessari gríðarlegu eftirspurn eftir tvískiptri tunnu

„Við keyptum í fyrsta upplagi um 500 tunnur sem seldust upp á augabraði og urðum við að bregðast við því og panta 500 tunnur til viðbótar. Við hefðum í raun viljað að íbúar myndu taka a.m.k mánuð í að aðlaga sig að breyttri losunartíðni til að meta hvort þessi stærð íláta myndi henta þeim. Í einhverjum tilfellum hefur tvískipri tunnu verið skilað og íbúar farið aftur í fjórar tunnur þar sem fyrirkomulagið hefur þá ekki hentað,“ sagði Atli ennfremur.

Fyrri greinHamar og Árborg náðu í stig
Næsta greinTár fyrir fár