Gríðarleg rigning hefur verið á Selfossi síðastliðinn sólarhring en uppsöfnuð sólarhringsúrkoma er 66 mm.
Veðurstöðvarnar á Selfossi og á Önundarhorni undir Eyjafjöllum hafa tekið við mestu úrkomunni á landinu síðasta sólarhringinn en þær komast þó aðeins rúmlega í hálfkvisti við Kvísker í Öræfum þar sem úrkoman er 94,4 mm.
Tómas Ellert Tómasson, verkfræðingur og veðurathugunarmaður á Selfossi, vekur athygli á þessu á Facebooksíðu sinni og tekur þar fram að 15% af allri úrkomu ársins á Selfossi hefur fallið síðustu 24 klukkustundirnar. Uppsöfnuð ársúrkoma fyrir síðasta sólarhring var 384 mm en er nú um 450 mm.
Ellert segir Selfyssingum og gestum þeirra þó að gráta eigi, því von sé á ágætis veðri um helgina. „Veðurblíða á föstudaginn gefur tóninn fyrir helgina á Selfossi,“ segir Ellert.