Laugardagurinn á Flúðum gekk vonum framar og var gríðarlegur fjöldi saman komin á hátíðarhöldum sem stóðu frá hádegi og fram á nótt.
„Þó að sólin hafi ekki látið sjá sig á Flúðum var hlýtt og þurrt í veðri sem er í raun hið fullkomna veður tilefnisins. Áhorfendur á traktorstorfærunni voru fleiri þúsund og og eftir keppnina myndaðist mikil stemning á tjaldsvæðinu sem og í öllum hreppnum þegar fólk kveikti upp í grillinu,“ sagði Bessi Theodórsson, hátíðarhaldari, í samtali við sunnlenska.is.
Í gærkvöldi voru svo vel heppnaðir tónleikar með Eyþóri Inga og hljómsveit þar sem spilagleðin var mikil enda stóðu tónleikarnir langt fram yfir auglýstan opnunartíma. Hljómsveitin Made in Sveitin lokaði svo deginum með stórhátíðardansleik.
„Hreimur og félagar gerðu sennilega sinn besta dansleik í manna minnum. Og það mátti líka sjá á glöðum gestum. Það var samdóma álit viðbragsaðila að dansleikurinn hafi farið með eindæmum vel fram og ekki kom til neinna stympinga. Allir skemmtu sér hið besta,“ bætti Bessi við.
Heimamannaballið í kvöld
Í dag sunnudag verður hvergi slegið slöku við því helgin stendur sem hæst. Meðal annars verður Leikhópurinn Lotta á ferðinni í Lækjargarði og hin árlega og sívinsæla furðubátakeppni fer fram við brúna yfir Litlu-Laxá.
Brenna og brekkusöngur fer fram í Torfdal klukkan níu í kvöld og svo kemur besta ballband landsins, Stuðlabandið, fram á dansleik sem hefur verið kallaður ,,heimamannaballið” þá flykkjast heimamenn á ball til að hitta gesti hátíðarinnar. Allir koma saman og gleðjast yfir frídegi verslunarmanna.