Allt tiltækt lið Brunavarna Árnessýslu berst nú við gríðarlegan sinueld í Tjarnabyggð í Sandvíkurhreppi, sunnan við Selfoss.
Þar logar mikill eldur á stóru svæði austarlega í byggðinni en að því er virðist stendur eldur og reykur að mestu leiti frá húsunum í hverfinu. Aðstæður eru erfiðar á vettvangi þar sem talsverður vindur er á staðnum sem eykur hratt á útbreiðslu eldsins.
Útköll um alla sýslu í allt kvöld
Liðsmenn BÁ haft í nægu að snúast í allt kvöld og fengið á þriðja tug útkalla en eldur hefur kviknað í gróðri í nokkur skipti innanbæjar á Selfossi og í Þorlákshöfn en einnig í Gnúpverjahreppi, Ölfusinu, Grímsnesi og nú undir miðnætti í Tjarnabyggð, á Skeiðunum og í Ölfusinu. Á Selfossi hefur Björgunarfélag Árborgar meðal annars aðstoðað í útköllum þar sem mannskapur BÁ er að sinna brunanum í Tjarnabyggð.
Fyrr í kvöld sendi slökkviliðsstjóri SMS í síma Árnesinga þar sem fólk var beðið um að fara sérstaklega varlega með skotelda í kvöld vegna hættu á gróðureldum.







