Grillað á Selfossi um helgina

Bæjar- og fjölskylduhátíðin Kótelettan hefst í dag á Selfossi með tónleikaveislu. Þetta er í fjórða skiptið sem hátíðin er haldin.

Dagskráin hefst klukkan 16 í dag með mörkuðum og Sprelli áður en tónleikarnir byrja klukkan 22 um kvöldið.

Þar koma fram Mannakorn, Dúndurfréttir, Ómar Diðriksson og sveitasynir, Stuðlabandið, Blaz Roca og Geirmundur Valtýrsson. Frítt verður inn á svæðið í boði Eimskipa og Flytjanda.

Gleðin hefst í Miðbæjargarðinum klukkan 13 á morgun þegar markaðir opna og kveikt verður upp í mörgum grillum.

Þar verður boðið upp á svína-, nauta- og lambakjöt. Sprell, leiktæki og annað verður á staðnum auk þess sem Sveppi, Íþróttaálfurinn, Solla Striða, veltibílinn, Unnur Eggerts og fleiri skemmta fólki. Ekki má gleyma söngkeppni barna í umsjá Siggu og Maríu.

Laugardagskvöldið hefst með sundlaugardiskói þar sem hinn eina sanni DJ Sveppz mun skemmta krökkum 13 ára og eldri klukkan 20.

Fyrir þá sem eru aðeins eldri verður dansleikur í og við Hvíta húsið síðar um kvöldið. Þar koma fram Skítamórall, Páll Óskar, Björgvin Halldórsson, Matti Matt og fleiri.

Hátíðinni lýkur svo á sunnudaginn með útimessu þar sem Þorvaldur Halldórsson mun taka lagið. Áfram verður sprell, markaðir og fleira í miðbæjargarðinum.

Aðstandendur hátíðarinnar hvetja fólk til að taka á móti vinum og vandamönnum, ekki síst brottfluttum Selfyssingum, og bjóða þeim heim þessa helgi.

Tvö tjaldsvæði verða í boði fyrir þá sem koma langt að, annað í Gesthúsum og hitt verður við Suðurhóla. Frítt verður fyrir fólk að tjalda við Suðurhóla.

Fyrri greinHjóla 100 kílómetra í góðgerðarhjólreiðum
Næsta grein„Alltaf gott að spila fyrir Árnesinga“