Grímsvatnahlaup í rénun

Vatnamælingamenn Veðurstofunnar að störfum við Gígjukvísl. Mynd úr safni. Ljósmynd: Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson

Frá því í gær hefur órói sem mælist á jarðskjálftastöðinni á Grímsfjalli farið hægt lækkandi. Fyrripart þriðjudags hækkaði óróinn nokkuð skarpt og náði hámarki aðfaranótt miðvikudags. Þessi hækkun í óróa tengist jökulhlaupinu sem nú stendur yfir og endurspeglar líklega aukningu í jarðhitavirkni vegna þrýstiléttis.

Vatnsmagn í Gígjukvísl virðist sömuleiðis hafa farið hægt minnkandi síðasta rúman sólarhringinn en hæsta vatnshæðarmælingin var síðdegis á miðvikudag. Út frá þessum athugunum má álykta að hámark jökulhlaupsins hafi verið á miðvikudag í Gígjukvísl og jafnvel eins snemma og á þriðjudaginn úr Grímsvötnum.

Að svo stöddu eru engin merki um aukningu í jarðskjálftavirkni eða gosóróa í Grímsvötnum. Talið er að mestar líkur séu á því eldgos verði vegna þrýstiléttis þegar rennsli úr Grímsvötnum er í hámarki. Það mun þó líklegast taka nokkra daga til viðbótar fyrir óróa í Grímsvötnum og vatnsmagn í Gígjukvísl að komast aftur niður í þau gildi sem sáust fyrir hlaupið.

Áfram verður því náið fylgst með virkni í Grímsvötnum næstu daga á meðan þessi atburður er í rénun og fluglitakóði fyrir eldstöðina verður áfram á gulum.

Fyrri greinMyndi láta Braga bæjarstjóra taka vakt á Bragabátum
Næsta greinLoksins íslensk ábreiða