Kjartan Björnsson, formaður Menningarnefndar Árborgar, afhenti Grími Hákonarsyni, kvikmyndagerðarmanni frá Vorsabæ í Flóa, blómvönd við Selfossbíó í dag í tilefni af sýningu myndarinnar Hreint hjarta.
Hreint hjarta er heimildarmynd eftir Grím um sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprest á Selfossi, sem frumsýnd var í síðustu viku.
Myndin var tekin til sýninga í Sambíóunum á Selfossi um helgina og er síðasta sýningin í kvöld kl. 20.
Myndin hefur fengið góða dóma en hún var meðal annars valin besta myndin á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði fyrr á árinu.