Grímur veiddi stærsta lax aldarinnar

Grímur með stórlaxinn á Tannastöðum. Ljósmynd/Sigurður Grétarsson

Grímur Arnarson á Selfossi setti heldur betur í stórlax á þriðjudagsmorgun þegar hann var við veiðar við Tannastaði, neðst í Soginu.

Hann setti í lax og fann strax að þarna var stór fiskur á ferðinni en eftir tæplega klukkutíma glímu kom á land 34 punda fiskur. Samkvæmt frétt Sporðakasta á mbl.is er um að ræða stærsta lax sem veiðst hefur á Íslandi á þessari öld og er þetta líklega einn af tíu stærstu löxum sem veiðst hafa hér á landi.

„Mér leist ekki al­veg á blik­una. Ég sá tvisvar í spól­una eft­ir að fisk­ur­inn hafði tekið svaka­leg­ar rok­ur og hann var kom­inn ein­hverja tvö hundruð metra frá mér. Ég var far­inn að ótt­ast að ég myndi ekki landa hon­um fyrr en á Sel­fossi,“ sagði Grímur í samtali við Sporðaköst.

Eft­ir 45 mínútna viðureign hringdi hann í Sigurð Grétarsson félaga sinn og bað hann um að koma og aðstoða sig. Sigurður hjálpaði Grími að taka myndir og mæla laxinn sem reyndist 118 sentimetra langur.

Það er gaman að bæta því við söguna að Egill Thorarensen, langafi Gríms, veiddi 36 punda lax á Tannastöðum árið 1960 svo að Grímur heldur fjölskylduhefðinni vel við í veiðiskapnum.

Ljósmynd/Sigurður Grétarsson
Fyrri greinForsetinn og leikskólabörn afhjúpuðu Afrekshug
Næsta greinHrafn keppti á sínu fyrsta Grand Prix móti