Í gær kl. 14:31 fengu Brunavarnir Árnessýslu tilkynningu frá Neyðarlínunni um að eldur logaði í gróðri á Hellisheiði.
Vegfarandi um svokallaða Þúsundvatnaleið keyrði fram á eldinn og hringdi í 112. Vegfarandinn var í hópi sem ferðaðist á fjórum stórum ferðabílum en þeir máttu ekki vera að því að stoppa og reyna að slökkva eldinn eða kanna umfang hans.
Tilkynningin um staðsetningu var því nokkuð óljós en slökkviliðsmenn frá Hveragerði fóru af stað á dælubíl, vatnsbíl og varðstjórabíl að leita eldsins.
Illa gekk að finna eldinn og var ekið þvers og kruss um Hellisheiði. Við nánari athugun kom í ljós að þyrla frá Norðurflugi hafði verið á sveimi yfir Heiðinni og gat flugstjóri hennar gefið slökkviliðsmönnum nokkurn veginn grein staðsetningunni.
Á þessum tímapunkti sáu slökkviliðsmenn reykinn en ekki var gerlegt að fara með þunga slökkvibíla á staðinn þannig að einn slökkviliðsmaður var fenginn frá Hveragerði með sinn fjallabíl og kerru frá slökkviliðinu með nauðsynlegum búnaði.
Fljótt gekk að slökkva eldinn sem kraumaði í mosaþembu en þarna brunnu um það bil 300 fermetrar.
Eldsupptök eru ókunn en slökkvistarfinu var lokið um klukkan 18.