Á dögunum var undirritaður samningur milli Landsvirkjunar, Ásahrepps og Landgræðslunnar um mótvægisaðgerðar vegna Sporðöldulóns.
Viðfangsefni samningsins felst í aðgerðum til endurreisnar gróðurlendis í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar frá árinu 2001. Þar var kveðið á um að framkvæmdaaðila bæri að bæta fyrir umhverfisáhrif vegna taps á gróðurlendi af völdum Sporðöldulóns.
Í samstarfi Landgræðslunnar, Landvirkjunar og Ásahrepps var unnin áætlun til 40 ára (2009-2048) vegna endurreisnarinnar. Felur hún í sér að á verktímanum verði endurreist gróðurlendi á um 600 ha í nágrenni við lónið. Framkvæmdir skv. áætluninni hófust sumarið 2009 en þá var gerður samningur til þriggja ára um upphaf verksins. Samningurinn sem nú hefur verið undirritaður nær til áranna 2012-2016. Að þeim tíma loknum verður árangurinn metinn m.t.t. næstu áfanga verksins.
Við uppgræðsluna hefur eingöngu verið borinn á tilbúinn áburður til þess að styrkja staðargróður. Ekki hefur verið gripið til annarra aðferða s.s. sáningu grasfræs. Framkvæmd uppgræðslunnar hefur verið í höndum heimamanna í Ásahreppi en Landgræðsla ríkisins hefur haft umsjón með verkinu í samstarfi við Ásahrepp og Landsvirkjun.