Um 200 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands unnu að því á Degi jarðar í apríl síðastliðnum að setja niður aspargræðlinga á Hafnarsandi.
Uppgræðslusjóður Ölfuss hefur veitt Skógræktinni styrk til verkefnisins sem nýttur er til að greiða ferðakostnað nemenda, nesti fyrir daginn og annan kostnað. Verið er að festa í sessi þá hefð hjá skólanum að gróðursetning sé fastur liður í vordagskrá nemendanna.
Settir voru niður græðlingar af alaskaösp sem klipptir höfðu verið niður á Mógilsá til beinnar stungu. Sú aðferð við asparrækt hentar vel að vori þar sem aðstæður eru góðar og góður raki í jörð.
Ellert Arnar Marísson, verkefnisstjóri hjá Skógræktinni, segir að nemendur hafi að langmestu leyti staðið sig vel. Auðvitað séu aldrei allir fullir eldmóðs í svona stórum hópi en í heild hafi verið mikill áhugi og dugnaður í hópnum. Áherslan var lögð á vönduð vinnubrögð frekar en hraða og afköst og flestum nemendunum sem Ellert ræddi við þótti dagurinn skemmtilegur.
Greint er frá þessu á heimasíðu Skógræktarinnar