Gróðursett í Vinaskógi vegna barnaþings

Ljósmynd/Aðsend

Síðastliðinn fimmtudag gróðursettu nemendur í Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi, ásamt umboðsmanni barna, 55 trjáplöntur í Vinaskógi við Þingvelli. Verkefnið var í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands og Yrkju – sjóð æskunnar til ræktunar landsins.

Tilefni gróðursetningarinnar er barnaþing sem fyrst var haldið í nóvember 2019 og í annað sinn í mars á þessu ári. Umhverfismál eru börnum afar hugleikin og var mikil áhersla lögð á þau málefni í umræðum á báðum barnaþingum. Markmið gróðursetningarinnar er að kolefnisjafna ferðir barnaþingmanna og sérstaklega þeirra sem komu lengst að, í samræmi við áherslur barnaþingmanna á umhverfis- og loftslagsmál og umhverfisvæna samgöngumáta.

Til Vinaskógar var stofnað í tilefni Landgræðsluskógaátaksins árið 1990 og átti frú Vigdís Finnbogadóttir hugmyndina að honum og er hún verndari hans. Frú Vigdís Finnbogadóttir, er jafnframt verndari barnaþings og því er vel við hæfi að velja Vinaskóg til gróðursetningarinnar nú. Allir nemendur Kerhólsskóla tóku þátt í gróðursetningunni ásamt starfsfólki umboðsmanns barna. Sævar Helgi Bragason, rithöfundur, flutti börnunum og öðrum viðstöddum hugvekju um umhverfis- og náttúruvernd og voru veitingar í boði umboðsmanns barna. Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með gróðursetningu og umhirðu Vinaskógar.

Umboðsmaður barna þakkar nemendum í Kerhólsskóla kærlega fyrir samstarfið. Það er von umboðsmanns að gróðursetning í Vinaskógi verði fastur hluti af barnaþingi til komandi ára og að skógurinn haldi áfram að vaxa til framtíðar.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLandsbankinn styrkir GOS áfram
Næsta greinVilltist í svartaþoku í Henglinum