Gröfutækni bauð lægst í strandstíginn

Stokkseyri og Eyrarbakki. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Gröfutækni ehf á Flúðum bauð lægst í gerð strandstígsins milli Stokkseyrar og Eyrarbakka sem ljúka á við næsta vor.

Sex verktakar buðu í verkið og hljóðaði tilboð Gröfutækni upp á tæpar 17,5 milljónir króna. Kostnaðaráætlun sveitarfélagsins er rúmar 19,9 milljónir króna.

Tvö tilboð voru undir kostnaðaráætlun en næst lægsta tilboðið var frá Borgarverki ehf., tæpar 18,9 milljónir króna.

Aðrir sem buðu í verkið voru Þjótandi ehf tæpar 21,5 milljónir, Fögrusteinar ehf tæpar 23,3 milljónir, Gröfuþjónusta Steins ehf rúmar 23,3 milljónir og Skúli Ævarr Steinsson rúmar 23,8 milljónir.

Verkið felur í sér uppbyggingu á göngustíg milli Stokkseyrar og Eyrarbakka. Stígurinn liggur frá gamla ruslahaugaveginum við Eyrarbakka að sjóvarnargarði rétt við Hraunsá.

Stígurinn liggur um gróin tún, eftir gömlu fráveitulagnastæði og einnig um mýrlendi að hluta. Að auki liggur stígurinn um svæði þar sem líkur eru á fornminjum. Á því svæði er skylda að það sé viðstaddur eftirlitsmaður meðan grafið er fyrir neðra burðarlaginu.

Hluti verksins skal unnin á árinu 2015 en heildarverklok eru 17. maí 2016.

Fyrri greinÁtta tillögur í nafnakosningu
Næsta greinLandgræðsluverðlaunin veitt í 25. sinn