Gröfutækni bauð lægst í gatnagerð

Flúðir. Ljósmynd/Hera Hrönn Hilmarsdóttir

Gröfutækni ehf á Flúðum átti lægra tilboðið í gatnagerð í Byggð á Bríkum á Flúðum sem boðið var út á dögunum. Tilboð Gröfutækni hljóðaði upp á 172,9 milljónir króna.

Það voru heimamenn sem bitust um verkið því Fögrusteinar ehf í Birtingaholti áttu hitt tilboðið sem barst og hljóðaði það upp á 185 milljónir króna. Kostnaðaráætlun Eflu hf er 184,6 milljónir króna.

Verkið felur í sér gatnagerð og lagnavinnu í fyrsta áfanga þessa nýja hverfis, ásamt uppsetningu á ljósastaurum. Verkinu er skipt upp í tvo hluta, þar sem fyrsta áfanga á að vera lokið þann 15. júlí næstkomandi og öðrum áfanga þann 30. september.

Sveitarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum að taka tilboði Gröfutækni og fól sveitarstjóra að ganga frá og undirrita samning um verkið.

Fyrri greinBókamessa Sæmundar á laugardaginn
Næsta greinEkki bara búálfur heldur líka garðálfur