Gröfutækni bauð lægst í Rauðholtið

Rauðholt, í hjarta Selfossbæjar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gröfutækni á Flúðum bauð lægst í endurgerð á hluta götunnar Rauðholts í austurbæ Selfoss. Tilboð var 81% af kostnaðaráætlun verksins.

Tilboð Gröfutækni hljóðaði upp á 127,7 milljónir króna en kostnaðarmat Sveitarfélagsins Árborgar er 157,5 milljónir króna.

Þrír aðrir verktakar sendu inn tilboð og var talsverður munur á hæsta og lægsta boði. Aðalleið í Hveragerði bauð 155,5 milljónir króna, Stéttafélagið í Hafnarfirði bauð 185,3 milljónir og Borgarverk á Selfossi 224,5 milljónir króna.

Verkið felur í sér að jarðvegsskipta götu, endurnýja allar veitulagnir og ljósastaura, malbika götu, gangstéttar og hjólastíg og steypa kantsteina. Einnig er verktakanum ætlað að undirbúa jarðveg fyrir tré, helluleggja hraðahindranir, setja upp umferðamerki og að sjálfsögðu að massa umferðamerkingar.

Verkinu á að vera lokið þann 15. október næstkomandi.

Fyrri greinListamannaspjall á sumardaginn fyrsta
Næsta greinNjarðvík knúði fram oddaleik