Gröfutækni klárar Rauðholtið

Vinna við 1. áfanga Rauðholts stendur enn yfir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gröfutækni ehf á Flúðum átti lægsta tilboðið í 2. áfanga endurgerðar götu og lagna í Rauðholti á Selfossi sem ljúka á næsta haust.

Tilboð Gröfutækni hljóðaði upp á 131,1 milljón króna og var 0,16% yfir kostnaðaráætlun Sveitarfélagsins Árborgar sem er 130,9 milljónir króna.

Þrjú önnur tilboð bárust í verkið og voru þau 12 til 21 prósent yfir kostnaðaráætlun. Borgarverk ehf bauð 147 milljónir króna, Jarðtækni ehf 155,4 milljónir og Fagurverk ehf 158,7 milljónir króna.

Á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag fól eigna- og veitunefnd Árborgar sviðsstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs að ganga til samninga og undirrita við Gröfutækni.

Verkmörk þessarar framkvæmdar eru sunnan gatnamóta Víðivellir/Rauðholt og farið verður yfir Engjaveg. Á síðasta ári hófust framkvæmdir við 1. áfanga endurbótanna, frá Hrísholti að Víðivöllum og er það verk einnig í höndum Gröfutækni. Öðrum áfanga á að vera að fullu lokið 15. október næstkomandi.

Verkið felur í sér að jarðvegsskipta götu, endurnýja allar lagnir og ljósastaura, malbika götu, hjólastíg og gangstéttar, steypa kantsteina og undirbúa jarðveg fyrir tré. Einnig skal helluleggja hraðahindranir, setja upp umferðamerki og síðast en ekki síst massa umferðamerkingar.

Fyrri greinTjón á húsi eftir eldingu í Mýrdalnum
Næsta greinSkora á Guðrúnu í formannsframboð