Tveir menn eru í haldi lögreglunnar á Selfossi en þeir voru handteknir í morgun í strætisvagni milli Selfoss og Hveragerðis.
Mennirnir reyndu að brjótast inn í fyrirtæki við Reykjamörk í Hveragerði aðfaranótt sl. sunnudags. Eigandi fyrirtækisins var þar inni við vinnu sína og „opnaði“ fyrir mönnunum sem stukku þá á brott og fundust ekki.
Í morgun varð eigandi fyrirtækisins aftur var við mennina þar sem þeir voru á göngu við Austurmörk. Áður en lögreglan kom á staðinn höfðu mennirnir hoppað upp í strætó og lagt af stað á Selfoss en lögreglan stöðvaði strætisvagninn og handtók mennina.
Þeir eru enn í haldi og bíða yfirheyrslu.