Staða læknamála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Rangárvallarssýslu var rædd á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra í dag.
Sveitarfélögin þrjú í sýslunni hafa fundað með forstjóra og framkvæmdastjóra hjúkrunar og heilsugæslu HSU, þar sem farið var yfir málin og leitað skýringa og lausna á þeirri stöðu sem komin er upp.
Niðurstaða fundarins er sú að fyrir liggur að grunnþjónusta læknis í sýslunni er tryggð í það minnsta næstu tvo mánuði. Sá tími verður nýttur til þess að auglýsa og ráða lækna í fastar stöður.
Einnig kom fram að til skoðunar eru hjá heilbrigðisráðuneytinu einhverskonar ívilnanir til laða að heilbrigðisstarfsfólk út á land og hvetur sveitarstjórn til þess að því máli verði hraðað eins og kostur er.
Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu lýstu sig að auki tilbúin til að liðka til fyrir ráðningarferlinu eins og þeim er heimilt. Samþykkt var að auka upplýsingaflæði um stöðu mála og að haldinn verði stöðufundur í næsta mánuði.