Grunur um fuglainflúensu í hröfnum

Bráðabirgðaniðurstöður úr sýnum úr hröfnum frá Laugarvatni og úr Öræfum gefa til kynna sýkingu með fuglainflúensuveirum. Samhliða hafa í auknum mæli borist tilkynningar til Matvælastofnunar um veika eða dauða villta fugla.

Annar hrafnanna fannst veikur og drapst svo, hinn hrafninn virtist vera heilbrigður en gat ekki flogið. Hann var tekin til aðhlynningar en um síðustu helgi, tveimur vikum eftir að hann fannst, var hann aflífaður þar sem ástandi hans hrakaði mikið. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum greindi fuglainflúensuveirur í sýnum úr báðum hröfnunum en beðið er staðfestingar á meinvirkni og gerð fuglainflúensuveiranna. Einnig fundust fuglainflúensuveirur í dauðum hettumáfum á Húsavík.

Tilkynningum um dauða fugla fjölgar
Á þessu ári hefur fram til þessa ekki greinst fuglainflúensa hér á landi. Mikilvægur hlekkur í vöktun sjúkdómsins eru tilkynningar frá almenningi til Matvælastofnunar um veika eða dauða villta fugla. Sárafáar tilkynningar hafa borist stofnuninni í sumar en frá miðjum september fór þeim að fjölga aftur og hafa því fleiri sýni verið tekin úr villtum fuglum og þau verið send á Tilraunastöð HÍ að Keldum. Beðið er eftir niðurstöðum en allt bendir til að fuglainflúensa gæti verið víða í villtum fuglum um þessar mundir.

Ekki handleika villta fugla
Almenningi er ráðlagt að koma ekki mjög nálægt eða handleika villtan fugl sem virðist ekki geta bjargað sér, nema með góðum sóttvörnum svo sem með því að nota einnota hanska og veiruhelda grímu. Það á líka við um fugl sem er einungis með væg einkenni eða virkar jafnvel heilbrigður að öðru leyti.

Matvælastofnun ítrekar beiðni til almennings um að tilkynna til stofnunarinnar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, en líka er hægt að hringja í síma 530 4800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Æskilegt er að fá myndir og upplýsingar um fuglategund, fjölda fugla og fundarstað með hnitum.

Fyrri greinFlugvöllur í Hvassahrauni eða Árborg?
Næsta greinRjómasletturnar flugu í FSu