Guðmundur Indriðason, garðyrkjubóndi og trésmiður á Lindarbrekku í Biskupstungum, varð 100 ára síðastliðinn föstudag, þann 15. maí.
Hann er fæddur í Ásatúni í Hrunamannahreppi, áttundi af ellefu systkinum. Kona hans er Jónína Sigríður Jónsdóttir, orðin 88 ára.
Guðmundur vann í tíu ár á Laugarvatni við bústörf og jarðvinnslu og mun vera einn af fyrstu jarðýtumönnum hér á landi. Haustið 1951 stofnaði hann nýbýlið Lindarbrekku í Laugarási. Guðmundur vann við smíðar í mörg ár, meðal annars við allar byggingar í Skálholti. Hann bauð sveitungum sínum í 95 ára afmælið og fékk þá afhent heiðursmerki Skálholts sem hann var sæmdur 1964.
Á Facebooksíðu Langlífis kemur fram að Gróa Magnúsdóttir, langalangamma Guðmundar í móðurætt, varð 101 árs, en hún varð ein af fyrstu Íslendingunum sem sannanlega náði þeim aldri.