Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri MS á Selfossi, lætur af því starfi 20. apríl næstkomandi að eigin ósk. Hann tekur við nýju starfi sem verkefnastjóri í uppbyggingu skyrframleiðslu á Selfossi til útflutnings á markaði í Evrópu.
Í tilkynningu frá MS segir að Pálmi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs Mjólkursamsölunnar tekur við daglegri stjórn vinnslustöðvarinnar á Selfossi fram á sumar. Þá verður nýr yfirmaður ráðinn í þessa stöðu.
Á þeim tíma verður starfsemin á Selfossi endurskipulögð, en breytingar á vinnslufyrirkomulagi mjólkur í landinu undanfarin tvö ár hafa leitt til þess að meira en helmingur allrar mjólkur sem framleidd er á Íslandi kemur til vinnslu á Selfossi. Gert er ráð fyrir að alls verði unnið úr meira en 70 milljónum lítra þar á yfirstandandi ári.
„Með þessum breytingum erum við að takast á við tvö mikilvægustu verkefni félagsins á næstu mánuðum og misserum“, segir Pálmi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs. „Annars vegar vill félagið styrkja getu sína til skyrútflutnings. MS hefur byggt upp mjög stóran og arðbæran markað fyrir skyr í Evrópu, en einungis lítill hluti þess er framleiddur hér á landi.
Markmið okkar er að byggja upp öflugri skyrframleiðslu á Selfossi sem getur leikið stærra hlutverk á þessum markaði. Byggja þarf upp nýja framleiðslu- og pökkunareiningu fyrir skyr til þess að það geti gengið eftir. Guðmundur mun leiða þessa uppbyggingu. Jafnframt hyggst félagið efla enn vöruþróun á skyri og öðrum próteinríkum vörum.
Hins vegar liggur nú fyrir að ljúka endurskipulagningu á öllum innri verkferlum í stóru vinnslustöðvunum tveimur á Selfossi og Akureyri til að félagið geti nýtt alla möguleika til hagræðingar sem skapast hafa með miklum fjárfestingum í grunnvirkjum og tækjabúnaði undanfarin 3 ár. Ég mun fylgja því eftir og meðan verkið stendur yfir fer ég jafnframt með daglega stjórn á vinnslustöðinni á Selfossi.“
Mjólkursamsalan gerir ráð fyrir að á þessu ári verði framleiddir allt að 140 milljónir lítra af mjólk í landinu. Það er um 11% meira en þegar framleiðslan var mest árið 2008.