Guðný Sigurðardóttir hefur verið útnefnd „Eldhugi Árborgar 2014“ af Rótarýklúbbi Selfoss en klúbburinn hefur ákveðið að veita þessa viðurkenningu ár hvert.
Tilnefningunni er fyrst og fremst ætlað að sýna virðingu og vekja athygli á frammistöðu eða viðfangsefnum einstaklinga sem takast á við stór og krefjandi verkefni á eftirtektarverðan hátt og eru öðrum hvatning og góð fyrirmynd.
Guðný fær tilnefninguna vegna áheitagöngunnar, sem hún fór í til minningar um barnabarn sitt í maí, Vilhelms Þór Guðmundssonar, sem drukknaði í Sundhöll Selfoss fyrir þremur árum. Gangan var aðdáunarverð og hefur án nokkurs vafa verið mörgum hvatning og styrkur.
Í tilefni af tilnefningunni hefur Rótarýklúbbur Selfoss styrkt söfnun Guðnýjar um 50.000 krónur en hún safnaði fyrir Birtu, sem eru Landssamtök foreldra eða forráðamanna barna og ungmenna sem látist hafa fyrirvaralaust.