„Þetta er frábært og miklu meiri peningar en ég átti von á. Ég er endalaust þakklát þeim sem gáfu í söfnunina, gengu með mér og komu nálægt verkefninu á annan hátt,“ segir Guðný Sigurðardóttir á Selfossi.
Hún afhenti fyrir skömmu rúmlega 2,2 milljónir króna, sem hún safnaði í kærleiksgöngu sinni eða áheitagöngu 21. maí síðastliðinn. Það var Birta, Landssamtök foreldra barna og ungmenna sem látist hafa fyrirvaralaust, sem fékk ágóðann.
Eins og kunnugt er þá gekk Guðný frá Landsspítalanum á Selfoss til minningar um dótturson sinn, Vilhelm Þór, sem drukknaði í Sundhöll Selfoss fyrir þremur árum, þá fimm ára gamall.
Eftir gönguna synti Guðný 286 ferðir í innilauginni þar sem slysið varð eða jafn margar ferðir og vikurnar sem Vilhelm Þór lifði.